Saga fyrirtækisins

Upphafið og eignarhaldið

TreverkTréverk er opinberlega stofnað þann 1. október árið 1962 af fimm hluthöfum sem allir höfðu áður starfað sjálfstætt sem trésmiðir.  Þeir voru Aðalberg  Pétursson, Bragi Jónsson, Hallgrímur Antonsson, Ingólfur Jónsson og Sveinn Jónsson. Sveinn var í eigendahóp félagsins til 2017, lengst allra.
Þrátt fyrir langan lífaldur fyrirtæksins þá hafa eingöngu starfað hjá því þrír framkvæmdastjórar. Sá fyrsti var fyrrnefndur Ingólfur Jónsson sem gengdi hlutverki sínu allt fram til ársins 1981. Þetta sama ár urðu breytingar á eignarhaldi og við stöðunni tók Bragi Jónsson sem sinnti henni til ársins 1989. Síðan þá hefur Björn Friðþjófsson sinnt framkvæmdastjórn Tréverks  og gert fyrirtækið að mjög eftirsóttum vinnustað með góðum vinnuanda. Starfsmannafjöldinn telur um 40 manna samstilltan hóp húsasmíðameistara, húsasmiða og verkamanna sem margir hverjir hafa tekið þátt í starfseminni um áratuga skeið.

Í dag eru hluthafar í Tréverki sex talsins, en þeir eru Björn Friðþjófsson, Guðmundur Ingvarsson, Hafþór Gunnarsson, Ívar Örn Vignisson, Kristján Elí Örnólfsson og Rögnvaldur Skíði Friðbjörnsson.

Framgangurinn og verkefnin

Tréverk hefur alveg frá upphafi tekið að sér nýbyggingasmíð á útboðsmarkaði ásamt breytingum og viðhaldi á eldri fasteignum. Jafnframt hefur fyrirtækið byggt íbúðir á eigin reikning og rekið trésmíðaverkstæði í höfuðtöðvum fyrirtækisins að Grundargötu 8-10. Starfsemin hefur verið mjög farsæl í gegnum árin, enda reksturinn farið fram á sömu kennitölunni alveg frá upphafi. Tréverk hefur ávallt reynt að þekkja sín takmörk, sniðið sér stakk eftir vexti og eingöngu tekist á við þau verk sem henta fyrirtækinu hverju sinni.

Fyrsta stóra verkefnið á sjöunda áratugnum var smíði orlofshúsa fyrir verkalýðsfélögin á Illugastöðum í Fnjóskadal. Síðan þá hefur mikið vatn hefur runnið til sjávar. Ef stiklað er á stóru á tæplega 50 ára sögu Tréverks eru helstu verkefnin á Eyjafjarðarsvæðinu t.d. Ráðhúsið á Dalvík, skrifstofu- og verksmiðjuhús fyrir Sæplast á Dalvík, Dalvíkurskóli, Svarfdælabúð, Íþróttahús við Síðuskóla á Akureyri, stækkun við Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri og ýmsir verkþættir í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi Akureyri. 2300fm viðbygging við Háskólann á Akureyri við Sólborg. 2000fm íþróttahús á Dalvík, breytingar á húsnæði Icelandair Hotels á Akureyri sem áður hýsti Háskólann á Akureyri og síðast en ekki síst reisti Tréverk lúxushótelið að Deplum í Fljótum í Skagafirði.
Fyrir utan stærri verkefni hefur fyrirtækið fullklárað fjölda einbýlis- og fjölbýlishúsa á svæðinu bæði á eigin vegum, fyrir Búseta og aðra, ásamt ýmsum viðhaldsverkefnum fyrir stærri útgerðar- og iðnfyrirtæki.

 Menningarhús á Dalvík

Eitt af eftirminnilegustu verkum sem fyrirtækið hefur skilað af sér er bygging Menningarhússins í miðbæ Dalvíkur á árunum 2007-2009. Sparisjóður Svarfdæla byggði húsið og gaf íbúum byggðarlagsins. Húsið er mjög sérstætt að allri gerð, stór bogaveggur að mestu úr gleri er aðaleinkenni hússins og öll efri hæð er með bogadregnum línum, en útlínurnar eiga að draga, í heild sinni, dám af einu laufi sparisjóðssmárans. Húsið er hið glæsilegasta og prýðir ásýnd bæjarins. Byggingaferlið krafðist verkfræðilegrar nákvæmni og mikilla útreikninga á byggingastað.